Verðbólga mælist nú 3,5 prósent og er yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands þriðja mánuðinn í röð og fer vaxandi. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn mikil í sextán mánuði.
Markmið Seðlabanka Íslands er að verðbólga sé ekki meiri en 2,5 prósent og það markmið náðist í desember í fyrra þegar hún fór í tvö prósent eftir að hafa verið yfir markmiðinu í um níu mánuði. Verðbólga var síðan undir markmiði bankans allt frá desember fram í maí á þessu ári þegar hún fór í 2,6 prósent og hélst þannig í júní.

Verðbólga fór síðan í þrjú prósent í júlí, 3,2 prósent í ágúst og nú í september mælist hún 3,5 prósent og hefur ekki verið meiri síðan í maí í fyrra.
Athygli vekur að vísitala neysluverðs hefur hækkað minna síðustu tólf mánuði með húsnæðisliðinn innanborðs eða um 3,5% eins og áður sagði en án hans hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,9%. Það bendir til að þróun húsnæðisverðs hafi dregið úr verðbólgunni undanfarið ár. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er á miðvikudag í næstu viku hinn 7. október.