Íbúi á hjúkrunarheimilinu Eir hefur greinst með kórónuveiruna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eir. Íbúinn er sagður einkennalaus og líðan hans góð eftir atvikum.
Íbúinn býr á 2. hæð suður í A-húsi Eirar og er nú kominn í einangrun. Þá segir í tilkynningu að brugðist hafi verið við smitinu af festu og aðstandendur látnir vita.
Öll 2. hæð Eirar í A-húsi verður lokuð fyrir heimsóknum meðan á einangrun og sóttkví stendur. Starfsmaður Eirar greindist með kórónuveiruna á miðvikudagskvöld. Í gær voru sjö íbúar á Eir í sóttkví og fjórir starfsmenn.