Saga Sif Gísladóttir, sem byrjað hefur tímabilið best allra markmanna í Olís-deildinni í handbolta, spilar með slitið krossband í hné.
Saga Sif hefur varið 40,8% skota sem hún hefur fengið á sig með Val. Hún kom á Hlíðarenda frá Haukum til að leysa af hólmi Írisi Björk Sverrisdóttur, og hefur með frammistöðu sinni stimplað sig inn í nýjasta landsliðshópinn. Hún átti ríkan þátt í sigri Vals í toppslagnum við Fram á föstudagskvöld.
Saga Sif greinir frá meiðslum sínum í viðtali við Ívar Benediktsson á handbolti.is. Hún hefur þrisvar slitið krossband í hné en við þriðju slit ákvað þessi 25 ára markmaður að sleppa því að fara í aðgerð og styrkja frekar hnéð, til að mynda með Crossfit-æfingum.
„Ég fór ekki í aðgerð við þriðja slit því svo stutt var frá síðustu aðgerð. Ég hætti í handbolta og byrjaði í crossfit og af einhverjum ástæðum fann ég ekki fyrir hnénu,“ sagði Saga Sif á handbolti.is.
„Nokkrum mánuðum seinna höfðu Haukar samband við mig og ég ákvað að prófa æfingu og gekk það vonum framar og gengið hefur vel síðan. Ég myndi aldrei mæla með að fólk færi ekki í aðgerð þar sem ég er markmaður og er ekki í mikilum contact á æfingum og svo eru meiðslin öll mismunandi. Ég legg mikið á mig aukalega svo að ég geti spilað og æft þessa íþrótt sem ég elska og vonandi get ég gert það lengi,“ sagði Saga Sif, sem er uppalin hjá FH en hefur einnig leikið með Fjölni, Haukum og nú Val.