Lögregla í Grikklandi hefur handtekið fimm flóttamenn sem grunaðir eru um að hafa átt þátt í því að kveikja í flóttamannabúðunum Moria á eynni Lesbos.
Gríski ráðherrann Michalis Chrisohoidis, sem fer með málefna borgaralegra réttinda, segir að eins manns til viðbótar sé enn leitað.
Rannsókn á brunanum stendur enn yfir, en eldurinn blossaði upp þann 9. september og varð stærstur hluti búðanna eldinum að bráð.
Ríkisstjórn Grikklands hefur kennt flóttamönnum sem höfðust við í búðunum um brunann. „Flóttamenn og farandfólk kveikti í búðunum til að þrýsta á ríkisstjórnina þannig að þeir kæmust fyrr frá eyjunni,“ sagði Stelios Petsas, talsmaður ríkisstjórnarinnar, við fjölmiðla um daginn.
Búið er að koma upp tímabundnum búðum í Kara Tepe, norður af Mytilene á Lesbos. Er það búið að koma upp rúmum fyrir um fimm þúsund manns, en í Moria voru pláss fyrir um 12 þúsund.
Enn sem komið er hafa einungis um þúsund manns komið sér fyrir í Kara Tepe. Hafa margir flóttamannanna kosið að sofa frekar undir berum himni í þeirri von að fá að yfirgefa eyjuna á næstunni.