Stjórnarflokkurinn Sameinað Rússland hefur unnið stórsigur í sveitarstjórnarkosningum þar í landi. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar haft yfirhöndina í sveitarstjórnarkosningum í Síberíu.
Vel hefur verið fylgst með kosningunum en Rússar hafa undanfarið lýst yfir mikilli óánægju með Vladimir Pútín Rússlandsforseta vegna lágra launa og viðbragða við kórónuveirufaraldrinum. Þá eru aðeins nokkrar vikur liðnar síðan eitrað var fyrir Alexei Navalny, helsta andstæðingi Rússlandsstjórnar.
Navalny hefur hvatt Rússa til að kjósa taktískt til þess að klekkja á Sameinuðu Rússlandi og stutt fjölda frambjóðenda sem hafa boðið sig fram í borgarstjórnir í Síberíu.
Fyrstu tölur sýna að stjórnmálamenn sem styðja ríkisstjórnina, sem styður Pútín, hafi unnið stórsigur í ríkjunum Komi, Tatarstan, Kamchatka og tugum annarra. Margir þeirra eiga von á því að verða ríkisstjórar en enn er verið að telja atkvæði.
Stuðningsmenn Navalny hafa hins vegar unnið sigur í borginni Novosibirsk, þriðju stærstu borg Rússlands, og háskólabænum Tomsk þar sem Sameinað Rússland virðist hafa misst meirihluta.
„Fólk er orðið þreytt á yfirvöldum. Þú getur ekki setið á valdastóli í tuttugu ár, stolið endalaust, gert allt sem þú hefur gert og ekki verið refsað,“ sagði Ksenia Fadeyeva, sem vann sæti í bæjarstjórn Tomsk.
Í Tomsk virðist Sameinað Rússland aðeins hafa unnið 12 af 37 sætum í bæjarstjórn. Tatiana Doroshenko, kjörstjóri í Tomsk, segist ekki muna eftir því að Sameinuðu Rússlandi hafi gengið svo illa í kosningum á þeim fimmtán árum sem hún hefur setið sem formaður í kjörstjórn Tomsk.