Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kveðst hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu og að vel mögulegt sé að grípa þurfi til hertra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðsluna. Óvissan sé mikil og staðan alvarleg.
Solberg sagði frá þessu á fréttamannafundi í hádeginu. Sagði hún tvö stór hópsmit – annars vegar í Bergen og svo í Sarpsborg og Frederikstad hins vegar – helstu skýringu aukinnar útbreiðslu í norsku samfélagi. Fyrr í vikunni fór nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, yfir 20 í landinu.
Sex af hverjum tíu brjóta reglur um sóttkví
Forsætisráðherrann greindi jafnframt frá niðurstöðum Háskólans í Bergen og Lýðheilsustofnunar landsins þar sem fram kemur að sex af hverjum tíu Norðmönnum sem hafi verið skikkaðir í sóttkví hafi rofið sóttkví. Algengast sé að fólk eldra en fimmtíu ára brjóti reglur um sóttkví.
Solberg sagði nauðsynlegt að falla frá fyrirhuguðum tilslökunum á sóttvarnareglum í landinu vegna þróunarinnar síðustu daga og vikur.
Þá komi til greina að herða enn frekar á aðgerðum sem myndi helst miða að því að fá fleiri til að stunda fjarvinnu og fjarnám og á þann veg draga úr þunganum í almenningssamgangnakerfinu í landinu.