Ástæða þess að ekki var getið til um tilvist skjals, sem vísað var til í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins sem var sýndur þann í mars 2012, í yfirlýsingu sem Verðlagsstofa skiptaverðs gaf út þann 12. ágúst er sú að skjalið hafði ekki fundist. Skjalið var geymt utan hefðbundsins skjalakerfis stofunnar, á aflögðu gagnadrifi sem núverandi starfsmenn hafa fæstir aðgang.
Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu sem Verðlagsstofu skiptaverðs sendi frá sér í dag.
Skjalið umrædda, sem hefur verið eitt af aðalumræðuefnum í deilum Samherja og Ríkisútvarpsins undanfarnar vikur, fannst nýlega hjá Verðlagsstofu skiptaverðs og er um að ræða þriggja blaðsíðna ódagsett og óundirritað skjal með töflum og tölulegum upplýsingum um útflutning á óunnum karfa til Þýskalands árin 2008 og 2009 samkvæmt yfirlýsingu Verðlagsstofu.
Fram kemur í skjalinu hvert meðalverð og magn í beinni sölu á karfa og á markaði innanlands þessi ár var ásamt yfirliti um útgefin meðalviðmiðunarverð á karfa hjá Verðlagsstofu eftir mánuðum árið 2008 og 2009. Í lok skjalsins dregur þáverandi starfsmaður Verðlagsstofu ályktun af þessum gögnum í nokkrum línum segir í yfirlýsingunni.
Ályktun starfsmanns VSS í lok skjalsins
Í ljós kemur að Samherji hf. er að greiða lægstu verðin en það fyrirtæki er eina fyrirtækið sem er að selja karfa í eigin vinnslu í Þýskalandi það er um að ræða beina sölu. Þau verð eru þó langt yfir þeim verðum sem fengust fyrir karfann í beinni sölu innanlands. Ef árin eru borin saman þá hafa þau verð sem Samherji hf. er að greiða hækkað verulega milli ára miðað við verð á uppboðsmarkaði í Þýskalandi.
Úr skjali sem starfsmaður VSS tók saman
Skjalið ber yfirskriftina „Greining á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009“ og var það tekið saman af þáverandi starfsmanni Verðlagsstofu skiptaverðs og send úrskurðarnefnd í apríl 2010. Viðkomandi starfsmaður lét af störfum hjá Verðlagsstofu vorið 2010.
Samherji birtir skjalið
Samherji sendi einnig út yfirlýsingu vegna málsins fyrr í dag þar sem sagt er að engin efnisleg niðurstaða sé dregin fram í skjalinu og að ekkert í skjalinu styðji þær ásakanir sem sem settar voru fram á hendur Samherja í Kastljósi.
Samherji birtir skjalið á vef sínum og segir ekkert í hinu nýfundna skjali staðfesta þær ásakanir sem voru fluttar í þætti Kastljóss.

„Þvert á móti kemur fram í skjalinu að aðeins lítill hluti umrædds útflutnings á karfa var veiddur af skipum Samherja. Þá er ekkert fjallað um stærð eða gæði karfans í vinnuskjalinu.“
Samherji hefur gert athugasemdir við að orðið skýrsla hafi verið notað í umræddum Kastljósþætti og sagt skýrsluna ekki til. Verðlagsstofa skiptaverðs sagði þann 12. ágúst að upplýsingar á Excel-formi hefðu verið teknar saman og nú að þriggja blaðsíðna minnisblað sem starfsmaður tók saman og dró ályktun af hafi verið sent á úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í byrjun árs 2012.
Tveir fyrrverandi fulltrúar sjómanna í nefndinni hafa sagst eiga sömu gögn. Ekki skipti máli hvort gögnin heiti skýrsla eða minnisblað. Það segi sína sögu.