Heimsbyggðin þarf að bregðast hratt við til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar utan Kína, að sögn forstjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Hann hefur áhyggjur af fjölda nýrra tilfella þar sem engin tengsl eru við Kína eða önnur staðfest smit.
Yfirvöld í Íran vara við því að kórónuveiran geti þegar verið komin til allra borga í landinu. Fjórir eru látnir af völdum veirunnar þar og átján tilfelli hafa greinst. Í Líbanon var fyrsta tilfellið staðfest í dag og fylgst er með tveimur öðrum vegna gruns um að þeir hafi sýkst af veirunni.
Alls hafa nú 1.152 tilfelli greinst í 26 ríkjum utan Kína. Af þeim hafa átta látið lífið. Langflest tilfellum eru enn í Kína þar sem rúmlega 75.500 tilfelli hafa verið staðfest og 2.239 hafa látist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, segir að glugginn til að halda veirunni sé að lokast og því þurfi heimsbyggðin að bregðast hratt við.
„Þessi faraldur gæti farið í hvaða átt sem er. Ef við stöndum okkur vel getum við forðast alvarlegt neyðarástand en ef við sólundum tækifærinu þá stöndum við frammi fyrir ærnum vanda,“ sagði hann í dag.
Um smitin utan Kína segir Tedros að þau séu enn tiltölulega fá en að mynstrið valdi áhyggjum, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Við höfum áhyggjur af fjölda tilfella með engin greinilega faraldfræðileg tengsl eins og ferðasögu eða snertingu við staðfest tilfelli,“ sagði Tedros og vísaði sérstaklega til írönsku tilfellanna.