Skoðun

Hin heilögu lögmál

Flosi Eiríksson skrifar

Í tengslum við kjaraviðræður þær sem eru í gangi þessar vikurnar og líka síðastliðið vor, hafa býsna margir talið nauðsynlegt að taka þátt í umræðu um þær á opinberum vettvangi. Innihaldið hefur nú verið allavega, en margir hafa þar sýnt skýrar og sterkar hvað rekur þá áfram en ef til vill var ætlunin.

Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, skrifar grein á heimasíðu sína mánudaginn 24. febrúar undir titlinum ,,Vegið að frábærri hagstjórn“ þar sem hann vitnar meðal annars til ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins um að yrði ,,að viðurkenna ákveðin lögmál“ í kjaraviðræðum og við lausn deilumála á þeim vettvangi.

Í þessum ummælum endurspeglast viðhorf gamallar valdastéttar, svona hafi kjaramálum verið skipað lengi og um það ríki ,,ákveðin lögmál“. Það að setja fram kröfur um að konur í láglaunastörfum fái eðlilega leiðréttingu á sínum kjörum og eigi möguleika á að framfleyta sér á þeim er að mati Björns birtingarmynd af ,,óraunhæfri kröfugerð á launamarkaði“ sem borin er fram að ,,lukkuriddurum“.

Fyrir Birni er svona framganga brot á heilögum lögmálum um ,,sátt“ um launastigann á markaði. Ekki er vikið að því einu orði að Ríkið samdi við hærra launaðan hóp BHM-félaga um umtalsvert meiri hækkanir án þess að nokkur af hægri vængnum eða af hálfu samtaka atvinnurekenda mótmælti því. Af einhverjum ástæðum finnst þeim sú hækkun í samræmi við lögmálið og ekki raska neinu jafnvægi.

Í þessu er gott að muna að frasinn um ,,ákveðin lögmál“ var líka notaður til að tala gegn kosningarétti kvenna, réttindabaráttu samkynhneigðra og því að einhleyp kona gæti verið forseti.

Ef íslenskt samfélag þolir það ekki að borga láglaunafólki mannsæmandi laun án þess að gamla valdakerfinu sé ógnað þá þurfum við kannski ekki að sjá neitt eftir þessari ,,frábæru hagstjórn“ sem virðist í huga sumra snúast um að halda samborgurum sínum föstum á lágum launum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.




Skoðun

Sjá meira


×