Innlent

„Við viljum ekki fá fleiri viðskiptavini“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þema 112-dagsins sem haldinn er um land allt í dag er öryggi í umferðinni.
Þema 112-dagsins sem haldinn er um land allt í dag er öryggi í umferðinni. Vísir

Í dag er 112-dagurinn haldinn um land allt í dag en þema dagsins er aukið öryggi fólks í umferðinni. Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, sýnileika í umferðinni skipta höfuðmáli. 

Í tilefni dagsins efna Neyðarlínan og samstarfsaðilar 112-dagsins til móttöku í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð klukkan 16.00 síðdegis þar sem afhent verða verðlaun í eldvarnagetraun og skyndihjálparmaður Rauða krossins verður útnefndur. Forseti Íslands mun þá halda ávarp við athöfnina. Sjálfboðarliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu koma sér fyrir á fjölförnum stöðum og dreifa um sautján þúsund endurskinsmerkjum til vegfarenda.

Tómas segir að þetta árið sé sjónum sérstaklega beint að öryggi fólks í umferðinni.

„Þemað þetta árið er öryggi í umferðinni. Vertu sýnilegur og vertu snjall við stýrið, það er að segja ekki í snjalltækjum og beindu athyglinni að veginum. Það hefur sýnt sig að ef fólk er með endurskin í yfirhöfnum þá er það fimm sinnum sýnilegra en annars. Þá séstu fimmfalt lengri vegalengd. Jafnvel þótt bílstjórinn sé ekki með hundrað prósent athygli þá sér hann þig allavega svo miklu, miklu fyrr.

Hvers vegna er mikilvægt að fólk hugi sérstaklega að þessu?

„Allir samstarfsaðilar á bakvið 112-daginn þekkja afleiðingar þess að fólk sé ekki sýnilegt og að athyglin dvíni hjá ökumönnum og við viljum ekki fá fleiri viðskiptavini, ég held það megi bara segja það þannig. Við viljum bara gjarnan fá fólk heilt heim án viðkomu hjá okkar starfsstöðvum,“ segir Tómas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×