Það var sannkallaður Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. GOG vann þá átta marka sigur á Ribe-Esjberg, 36-28. Alls litu 20 íslensk mörk dagsins ljós í leiknum.
Þeir Óðinn Þór Ríkharðsson, GOG, og Gunnar Steinn Jónsson, Ribe-Esjberg, gerðu sér lítið fyrir og skoruðu sjö mörk hvor í dag. Þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson fjögur mörk í liði GOG og Rúnar Kárason gerði tvö í liði Ribe-Esjberg.
Daníel Þór Ingason tókst ekki að skora í dag en hann er þriðji Íslendingurinn í liði Ribe-Esjberg.
GOG er einnig með þrjá Íslendinga á sínum snærum en markvörðurinn ungi Viktor Gísli Hallgrímsson varði sjö skot í markinu í dag. Sem stendur er GOG í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig en Ribe-Esjberg sæti neðar með 21 stig.
Þá skoruðu Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson þrjú mörk hvor er lið þeirra Kristianstad tapaði með fjögurra marka mun fyrir Ysted í sænsku úrvalsdeildinni, lokatölur 27-23. Kristianstad er í 3. sæti með 30 stig, fimm stigum frá toppsæti deildarinnar.
