Kínverskur læknir, búsettur í kínversku borginni Wuhan þar sem nýr kórónaveirufaraldur er talinn eiga upptök sín, hefur verið hylltur sem hetja eftir að hann varaði við veirunni þegar hún uppgötvaðist fyrst í desember. Li var í kjölfarið ávítaður af lögreglu fyrir að „bera út slúður“ en í byrjun febrúar veiktist hann sjálfur alvarlega af völdum veirunnar.
Alls eru nú 425 látnir af völdum veirunnar og yfir 20 þúsund tilfelli staðfest á heimsvísu, langflest þó í Kína. Veirunnar varð fyrst vart í Wuhan í desember þegar fólk tók að veikjast af óþekktri öndunarfærasýkingu.
Bað vini sína að hafa varann á
Bæði BBC og CNN ræða við umræddan lækni, Li Wenliang, í fréttum sínum í dag. Li vakti fyrst máls á veirunni, sem þá var óþekkt, þann 30. desember síðastliðinn. Þá sendi hann bekkjarfélögum sínum úr læknisfræðinni skilaboð í gegnum spjallforritið WeChat þar sem hann sagði frá því að sjö einstaklingar hefðu verið greindir með veikindi af völdum veiru sem líktist SARS-veirunni. Þessir einstaklingar væru í einangrun á sjúkrahúsi í Wuhan.
Li sagði að veiran væri að öllum líkindum afbrigði af kórónaveirunni og bað vini sína að hafa varann á. Skjáskot af samtalinu fóru í kjölfarið eins og eldur í sinu um netheima í Kína. Nafn Li fylgdi með.
Í frétt CNN kemur fram að sama dag og Li sendi vinum sínum skilaboð hafi heilbrigðisyfirvöld í Wuhan gefið út varúðartilkynningu vegna „óþekktrar lungnabólgu“ sem greinst hafði á sjúkrahúsi þar í borg. Í tilkynningunni var jafnframt tekið fram að engar upplýsingar mætti gefa um hin dularfullu veikindi án tilskilinna leyfa. Á gamlársdag var Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni tilkynnt um faraldurinn.
Lagður inn á gjörgæslu
Li var þó alls ekki laus allra mála. Hann segir að skömmu eftir að skjáskotin fóru í dreifingu hafi lögregla í Wuhan sakað hann um að bera út slúður. Þann 3. janúar var hann svo aftur ávítaður af lögreglu fyrir að „dreifa slúðri á netinu“ og „valda alvarlegum glundroða í samfélaginu“. Þá var hann einnig látinn skrifa undir yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi „misgjörðir“ sínar og hét því að verða aldrei uppvís að slíku aftur.
Li sneri svo aftur til vinnu á sjúkrahúsinu í Wuhan og lýsir því að honum hafi fundist hann algjörlega hjálparvana. Þann 10. janúar byrjaði Li svo að finna fyrir einkennum hinnar nýju kórónaveiru eftir að hafa sinnt sjúklingi á spítalanum. Hann varð í kjölfarið alvarlega veikur og var lagður inn á gjörgæslu. 1. febrúar var hann greindur með kórónaveirusmit.
Kínversk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa tekið illa á málum í árdaga útbreiðslu veirunnar. Þannig tilkynnti lögregla í Wuhan að hún hefði beitt lagalegum þvingunum gegn átta einstaklingum vegna „slúðurs“ um hina óþekktu lungnabólgu sem þeir hefðu birt og dreift á netinu.
Ekki er ljóst hvort Li var einn þeirra en Hæstiréttur í Kína hefur nú ávítað stjórnvöld fyrir meðferðina á hópnum. Skýrt þykir að viðvaranir fólksins hefðu getað komið sér vel í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar í upphafi.
Forsætisnefnd Kína viðurkenndi í gærkvöldi alvarlega annmarka á viðbrögðum við veirunni, sem talin er eiga upptök sín á markaði í Wuhan. Áður hefur verið greint frá óánægju Kínverja í garð stjórnvalda og þau sökuð um að gera lítið úr alvarleika faraldursins. Þá eru embættismenn sagðir hafa jafnvel gengið svo langt að þagga niður fréttir af veirunni.