Minnst 35 eru nú sögð látin eftir jarðskjálftann sem reið yfir Tyrkland á föstudag samkvæmt upplýsingum frá tyrkneskum yfirvöldum.
Nú er talið er að yfir 1.600 manns hafi slasast í skjálftanum sem mældist 6,8 að stærð en Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti greindi fjölmiðlum frá því í dag að 45 hafi verið bjargað úr rústum bygginga.
Hamfarirnar ollu mikilli eyðileggingu í bænum Sivrice þar sem byggingar hrundu og íbúar flúðu út á götur.
Fólks er enn saknað á svæðinu og hafa yfir 3.500 björgunaraðilar unnið sleitulaust síðustu sólarhringa við mjög erfiðar aðstæður. Næturfrost hefur verið á svæðinu og hafa viðbragðsaðilar sett upp yfir 9.500 tjöld og dreift 17 þúsund heitum máltíðum.
Talið er að 76 byggingar hafi eyðilagst í skjálftanum og þar að auki séu yfir eitt þúsund skemmdar.
Svæðið sem um ræðir er um 550 kílómetra austur af höfuðborginni Ankara. Um 4000 manns búa í bænum Sivrice sem er vinsæll ferðamannastaður við Hazar-vatn.
Tala látinna nú minnst 35 í Tyrklandi

Tengdar fréttir

Minnst 22 látnir eftir jarðskjálftann
Minnst 22 eru látnir og rúmlega eitt þúsund slasaðir eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir austurhluta Tyrklands í gær.

Minnst fjórtán látnir í hörðum jarðskjálfta í Tyrklandi
Talið er að jarðskjálftinn hafi verið 6,8 stig að stærð og að hann hafi fundist í nágrannalöndunum Sýrlandi, Georgíu og Armeníu.