Suðurlandsvegi hefur verið lokað við Þrengsli fyrir umferð til austurs eftir slys sem varð þar nú síðdegis. Lögregla og viðbragðsaðilar eru nú að störfum á vettvangi.
Slysið varð þegar ökumaður bifhjóls fipaðist í beygjunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er hann ekki talinn alvarlega slasaður og var hann uppistandandi þegar fyrstu fréttir af vettvangi bárust.
Bílaröð hefur myndast við beygjuna þar sem slysið varð en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni liggur ekki fyrir hversu lengi lokunin mun vara.