Sjúkraflutningamenn tóku á móti dreng inni í sjúkrabíl fyrir utan Landspítalann í Reykjavík um þrjúleytið í dag.
Þetta kemur fram á vef mbl.is. Þar kemur einnig fram að um klukkan hálfþrjú hafi slökkviliði borist tilkynning um konu sem komin væri í hríðir og að stutt væri á milli þeirra.
Tekin hafi verið ákvörðun um að senda konuna á Landspítalann með sjúkrabíl en ekki hafi verið komist lengra en svo að drengurinn hafi fæðst inni í bílnum, á bílastæði fæðingardeildarinnar, þar sem sjúkraflutningamenn tóku á móti honum.
Mbl hefur eftir vakthafandi slökkviliðsmanni að móður og barni heilsist báðum vel.
