158 manns hið minnsta fórust og um fimm þúsund slösuðust í sprengingunni. Framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir stöðuna úti skelfilega.
„Þriðjungur íbúa Líbanon er flóttafólk sem hefur búið í Beirút til fjölda ára. Bæði frá Sýrlandi og Palestínu þannig að ástandið í landinu var fyrir mjög slæmt og ekki bætti þessi sprenging í það,“ sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Um 300 manns misstu heimili sín og er Rauði krossin á Íslandi tilbúinn til að fara út og veita aðstoð, verði óskað eftir því.
„Það hefur ekki verið send út beiðni til hreyfingarinnar að senda fólk á staðinn en það sem við erum að gera auk annarra Rauða kross hreyfinga í heiminum er að senda fjármuni,“ sagði Kristín.

Neyðarsöfnun hefur verið hrint af stað og hafa safnast rúmlega tólf milljónir. Þar af komu átta milljónir frá utanríkisráðuneytinu.
Fyrsti áfangi var rústabjörgun og er honum lokið. Nú vinna sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Líbanon að því að veita fólki fæði, klæði og húsnæði.
„Þeir virðast vera með nægan mannskap. Það hefur vantað frekar lækningatæki, lyf og fleira,“ sagði Kristín.
Mikil mótmæli hafa verið í borginni síðustu daga og hafa valdamenn verið sakaðir um spillingu og vanrækslu.
Upplýsingamálaráðherra Líbanons, Manal Abdel Samad - tilkynnti um afsögn sína í morgun og varð þar með fyrst ráðherra til að segja af sér embætti eftir sprenginguna.
Forsætisráðherra Líbanon, Hassan Diab sagðist í gær ætla að óska eftir því að boðað yrði til þingkosninga fyrr en áætlað væri.
„Á ríkisstjórnarfundi á mánudaginn legg ég fram frumvarp sem kveður á um að flýta kosningum. Örvænting okkar er mikil,“ Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon.