Innlent

Heyskapur á blússandi siglingu á Suðurlandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Heyskapur á Suðurlandi hefur gengið óvenjulega vel í sumar enda veðrið búið að vera bændum hagstætt. Flestir eru búnir með fyrsta slátt, annar sláttur er víða hafin og þá er reiknað með að einhverjir nái þriðja slætti í lok sumars.

Veðrið hefur leikið við sunnlenska bændur eins og aðra íbúa landshlutans í sumar og ekki spilli sprettan fyrir á túnum bænda. Heyskapur hefur því gengið vel. Sigurður Ágústsson, kúabóndi í Birtingaholti í Hrunamannahreppi og verktaki í heyskap er sáttur og sæll.

„Já, það hefur bara gengið ljómandi vel, ég held að bændur hljóti bara að vera brattir, það er búið að ganga fínt enda búið að vera mjög gott veður síðasta hálfa mánuðinn. Heyin eru mjög góð enda uppskeran góð og gæði heyjanna fín heilt yfir,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að það færist í vöxt, ekki síst hjá kúabændum að þeir heyi í flatgryfjur eða útistæður, sem hefur gefist mjög vel en það sé þó lang mest að gera í rúlluheyskapnum.

„Það er líflegt, já, já, þetta er reyndar búið að vera mjög þægilegt núna síðasta hálfan mánuðinn eða þrjár vikurnar, það er búið að vera svo þurrt og gott og þá er svo þægilegt að eiga við þetta. Það munar öllu, það er minna stress og hægt að geyma til morguns stundum það sem væri hægt að gera í dag, þannig að það er ljómandi þægilegt.

Allt bendir til þess að einhverjir bændur á Suðurlandi munu slá þrisvar í sumar.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

En heldur Sigurður að einhverjir bændur muni slá þrisvar?

„Já, ég gæti alveg trúað því, þeir sem voru fyrstir. Við byrjuðum 17. júní, það gæti alveg verið að þeir sem voru fyrstir þurfi að taka þrisvar eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×