Framkvæmdir eru að hefjast við bygginu fjörutíu herbergja hótels í Reykholti í Biskupstungum í Bláskógabyggð, sem mun kosta um hálfan milljarð króna. Hótelið verður tilbúið næsta vor.
Nýja hótelið verður byggt í Fagralundi í Reykholti skammt frá Friðheimum og við Gullna hringinn. Þrjár fjölskyldur standa að byggingunni en forsvarsmaður verkefnisins er Jóhann Guðni Reynisson. Hótelið kemur í einingum frá Noregi.
„Hótelið byggir mikið á tveggja manna gistingu þannig að við gerum ráð fyrir því að halda áfram að fá til okkar ferðamenn, sem eru á bílaleigubílum. Það breytist núna, við getum líka tekið á móti hópum en ég reikna með að bílaleigutraffík verði í öndvegi hjá okkur allavega til að byrja með,“ segir Jóhann Guðni.

Það vekur óneitanlega athygli að ráðist sé í hótelbyggingu á þessum tíma þegar kórónuveiran er en í gangi og lítið sem ekkert af ferðamönnum á landinu.
„Við höldum samt að það sé besti tíminn að gera það á meðan það er tiltölulega rólegt yfir og fáir erlendir ferðamenn á ferðinni, sem er náttúrulega langstærsti viðskiptamannahópurinn okkar, þannig að ef ekki núna, þá hvenær,“ segir Jóhanna Guðni og bætir við;
„Reykholt er líka mjög vaxandi núna, þar eru miklar framkvæmdir og Friðheimar draga til sín hundruð þúsunda ferðamanna á hverju ári og það er góður veitingastaður bara í næsta húsi við okkur, sem heitir Mika, Bjarnabúð, sundlaugin og öll þessi þjónusta á svæðinu, stutt á Gullfoss og Geysi og Þingvelli.“

Jóhann Guðni er sannfærður að nýja hótelið muni ganga mjög vel og ferðamenn eigi eftir að streyma á ný til landsins.
„Orðspor íslands er bara það sterkt á heimsvísu að við höfum enga ástæða til að vera annað en bjartsýnir og látum bara vaða á þetta.“