Erlent

Far­þegar frá yfir 50 löndum sleppa við sótt­kví í Bret­landi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþegar nýlentir á Heathrow-flugvelli.
Farþegar nýlentir á Heathrow-flugvelli. Vísir/getty

Farþegar sem ferðast til Bretlands frá yfir fimmtíu löndum, þar með talin Frakkland, Spánn, Þýskaland og Ítalía, munu ekki þurfa að sæta sóttkví við komuna til landsins frá og með 10. júlí. Þetta staðfestir samgönguráðuneyti Bretlands við breska ríkisútvarpið.

Heildarlisti yfir umrædda tugi landa, sem metin eru „áhættuminni“ með tilliti til kórónuveirunnar en önnur lönd, verður birtur síðar í dag. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort Ísland sé á listanum.

Flestir ferðalangar sem koma til Bretlands nú þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Með nýju reglunum munu breskir farþegar ekki heldur þurfa að sæta sóttkví er þeir koma til flestra landanna á listanum.

Áfram verða þó breskum farþegum settar takmarkanir á ferðalög til landa sem metin eru háhættusvæði með tilliti til veirunnar, til dæmis Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×