Hið minnsta 32 eru látnir og fleiri er saknað eftir að ferja sökk í Búrígangafljót við bangladessku höfuðborgina Dakka í dag.
Björgunarsveitir sem unnið hafa á staðnum segja að ferjan the Morning Bird hafi sokkið eftir árekstur við annan bát. Ferjan var á leið til höfuðborgarinnar með um fimmtíu manns innanborðs. BBC greinir frá því að fjöldi farþega hafi verið fastir inn á káetum sínum á meðan að ferjan sökk.
Kafarar hafa unnið við björgunarstörf og hafa lík þrjátíu og tveggja farþega fundist en enn er talið að 20 sé saknað eftir slysið.