Samstarf Þórs og Coolbet hófst ekki með því að leikmenn og þjálfari karlaliðs félagsins í fótbolta klæddust derhúfu með merki veðmálafyrirtækisins í myndbandsviðtölum á föstudaginn. Yfirlýsing knattspyrnudeildar félagsins frá því í gær heldur ekki vatni.
Fyrir keppnistímabilið í ár seldu Þórsarar líkt og önnur félög árskort á heimaleiki til sinna stuðningsmanna. Árskort Þórs voru vandlega merkt Coolbet, fyrirtækinu sem Þórsarar segjast í yfirlýsingu engan samning hafa gert við né þegið neinar greiðslur frá. Mynd af árskortinu má sjá hér að ofan.
Yfirlýsing knattspyrnudeildar Þórs:
Stjórn knattspyrnudeildar Þórs harmar það atvik sem átti sér stað að loknum leik Þórs og Grindavíkur í 1. umferð Lengjudeildarinnar sl. föstudag 19. júní, þegar leikmenn og þjálfarar liðsins komu í viðtal eftir leik með húfu með vörumerki fyritækisins Coolbet.
Félagið harmar þetta atvik og tekur fulla ábyrgð í málinu.
Engin samningur hefur verið gerður við umrætt fyrirtæki né mun vera gerður og Þór hefur ekki og mun ekki þiggja neinar greiðslur frá þeim.
Við viljum biðjast velvirðingar á þessum mistökum okkar og munum leggja okkur fram við að vanda vinnubrögð okkar í framtíðinni
Ef taka ætti yfirlýsingu Þórs trúanlega myndi sú spurning vakna hvers vegna knattspyrnudeild félagsins sé svo áfjáð í að auglýsa erlent veðmálafyrirtæki sem raun ber vitni. Hvorki þeirri spurningu né öðrum varðandi málið virðist hins vegar nokkur af forkólfum Þórs vilja svara. Formaður knattspyrnudeildar, Óðinn Svan Óðinsson, svaraði símtali á mánudagsmorgun og sagði Þórsara þá vilja funda um málið áður en þeir tjáðu sig. Ekki hefur náðst í hann síðan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Íþróttafulltrúi Þórs, Jón Stefán Jónsson, vísaði í dag á Reimar Helgason framkvæmdastjóra félagsins sem sagði við Vísi að um mál knattspyrnudeildar væri að ræða og vildi ekki tjá sig.
Framkvæmdastjóri KSÍ vísaði, án þess að vita af auglýsingunum á árskortum Þórs, derhúfumálinu svokallaða til aga- og úrskurðarnefndar á þeim forsendum að það gæti hafa skaðað ímynd knattspyrnunnar. Nefndinni er heimilt að sekta félög um 50-100 þúsund krónur og úrskurða menn í leikbönn.
Ólöglegt er að auglýsa veðmálafyrirtæki á Íslandi nema þau sem njóta sérstakra undanþága. Slíkt lögbrot varðar sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði.