Knattspyrnusamband Íslands vekur í dag athygli á ákvæði um veðmálastarfsemi sem samþykkt var í vetur og sett inn í reglugerð sambandsins um knattspyrnumót.
KSÍ er með til skoðunar mál Þórsara á Akureyri sem auglýstu með duldum hætti erlent veðmálafyrirtæki eftir sigur sinn á Grindavík í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar í fótbolta á föstudag. Leiða má að því líkum að það mál eigi þátt í því að KSÍ minni nú á að leikmönnum, þjálfurum og öðrum sem koma að knattspyrnuleikjum sé óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti.
Ákvæðið er svohljóðandi:
„Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja. Aðilar sem taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning. Leikmanni, forsvarsmanni félags eða starfsmanni leiks eða félags sem leitað er til af aðila sem hefur í hyggju að hafa óeðlileg afskipti af úrslitum leikja með aðstoð framangreindra aðila ber skylda til þess að tilkynna slíkt tafarlaust til skrifstofu KSÍ.“
Á vef KSÍ er brýnt fyrir aðildarfélögum að kynna ákvæðið fyrir leikmönnum og öðrum félagsmönnum, en það var kynnt með dreifibréfi í nóvember síðastliðnum og aftur í lok apríl.