Hlé hefur verið gert á sameiginlegum fundi samninganefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Samninganefndir munu vinna áfram sitt í hvoru lagi og halda viðræður áfram á morgun þegar þeirri vinnu er lokið.
Samningafundur í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins hófst klukkan hálf tíu í morgun og var hlé gert á viðræðum klukkan korter yfir fjögur. Ríkissáttasemjari fól samninganefndum ákveðin verkefni sem unnið er að fram að næsta sameiginlega fundi.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjar segir viðræður flóknar en að virkt samtal sé í gangi á milli samninganefnda.
Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í fimmtán mánuði og að óbreyttu hefst verkfall hjúkrunarfræðinga eftir tæpa tvo sólarhringa.
Tíminn til þess að semja við hjúkrunarfræðina er að renna út og er undirbúningur verkfalls hjúkrunarfræðinga á lokastigi að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, formanns íslenskra hjúkrunarfræðinga.