Guðni Th. Jóhannesson ynni öruggan sigur ef kosið yrði um forseta Íslands í dag samkvæmt könnun Maskínu fyrir Stöð 2. Guðmundur Franklín Jónsson sækir fylgi sitt helst til eldra fólks og kjósenda flokka til hægri.

Könnunin var gerð dagana 3. til 10. júní með slembiúrtaki fólks af öllu landinu sem náð hefur átján ára aldri.


Guðni fengi 92,4 prósent atkvæða samkvæmt könnun Maskínu og Stöðvar tvö og Guðmundur Franklín 7,6 prósent. Karlar eru mun líklegri til að kjósa hann en konur eða 12,5 prósent karla en einungis 2,6 prósent kvenna myndu kjósa Guðmund Franklín.

Guðni nýtur mesta fylgis yngstu kjósendanna eða 98,4 prósenta í þeirra hópi. Forsetinn er með yfir nítíu prósenta fylgi í öllum aldurshópum nema hjá sextíu ára og eldri þar sem 16,1 prósent segjast ætla að kjósa Guðmund Franklín en 83,9 prósent Guðna.

Forsetinn nýtur mesta fylgis á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem nærri 99 prósent hyggjast kjósa Guðna. Sterkasti landsfjórðungur Guðmundar Franklín er Norðurland þar sem 13,3 prósent segjast styðja hann.
Eins og í nýlegri könnun Gallup sækir Guðmundur Franklín fylgi sitt helst til þeirra sem myndu kjósa Miðflokkinn í alþingsikosningum. Þar hefur fylgi hans þó dalað töluvert frá könnun Gallup og mælist nú 39,6 prósent en 60,4 prósent Miðflokkskjósenda myndu kjósa Guðna. Þá nýtur Guðmundur Franklín einnig tveggja stafa stuðnings frá kjósendum Flokks fólksins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Fylgið er aftur á móti í eins stafs tölum meðal kjósenda annarra flokka.

Samkvæmt þessu er Guðni nú að mælast með svipað fylgi og þegar boðið var fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur eftir að hún hafði setið í tvö kjörtímabil árið 1988. Fylgið er öllu meira en Ólafur Ragnar Grímsson fékk þegar fyrst var skorað á hann í forsetastóli árið 2004 en þá fékk hann 85,6 prósent atkvæða.

Aldrei áður hefur verið skorað á forseta í kosningum eftir aðeins eitt kjörtímabil.
Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson mætast í fyrsta sinn í sjónvarpi í þættinum Baráttan um Bessastaði sem hefst á Stöð 2 klukkan 18:55. Þátturinn er í beinni útsendingu og opinni dagskrá.