Útför Bandaríkjamannsins George Floyd, sem lést í lok síðasta mánaðar af völdum lögreglumannsins Derek Chauvin, fer fram í heimabæ Floyd í Houston í Texas í dag þar sem hann verður jarðaður við hlið móður sinnar. BBC greinir frá.
Floyd ólst upp í Houston en bjó síðustu ár ævi sinnar í Minneapolis en dauði hans varð kveikjan af mótmælaöldu sem hefur breiðst út um Bandaríkin og fleiri lönd. Milljónir manna hafa safnast saman til þess að mótmæla kynþáttahatri og lögregluofbeldi. Lögreglumennirnir fjórir sem komu að dauða Floyd hafa verið reknir, handteknir og ákærðir.
Mótmælin hafa verið bæði friðsamleg og ófriðsamleg í Bandaríkjunum en víða hafa verið haldnir friðsamlegir samstöðufundir og var það til að mynda gert hér á landi í síðustu viku.
Útför Floyd fer fram í Fountain of Praise kirkjunni í dag og verða gestir um fimm hundruð talsins. Jarðneskar leifar Floyd verða því næst fluttar í Pearlandkirkjugarðinn þar sem hann verður jarðsettur við hlið móður sinnar í lokaðri athöfn.