Íslensku CrossFit drottningarnar eru stjörnur á heimsvísu og þær blönduðu sér allar í réttindabaráttu svartra í gær í kjölfarið af margra daga óeirðunum og mótmælum í Bandaríkjunum.
Íslenska CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir æfir þessa dagana út í Bandaríkjunum og upplifir því ástandið í Bandaríkjunum frá fyrstu hendi. Hún ákvað að tjá sig um stöðuna í réttindabaráttu svartra á Instagram síðu sinni.
„Við getum hætt að berjast fyrir þessu þegar jafnrétti er orðið normið,“ hefur Katrín Tanja pistil sinn á Instagram.
„Ég trúi því ekki að við séum að ræða um grunnréttindi fólks og að það sé komið fram við þá eins og aðra en samt þurfum við þess. Ég er svo langt frá því að geta skilið það hvernig mannfólkið getur komið fram við aðra með slíku óréttlæti bara vegna húðlitar þess. Það ætti að vera ekkert annað en gerð sálar þinnar sem á að skipta máli. Ég er niðurbrotin, leið og verð óglatt af því að sjá hver staðan er núna og hvað sé í gangi í heiminum í dag. Tíminn fyrir breytingar er runninn upp,“ skrifaði Katrín Tanja.
„Ég átta mig vel á því að ég skil ekki þetta að fullu og gæti verið að segja eitthvað vitlaust núna. Ég bið ykkur innilega afsökunar ef ég er að fara yfir strikið en ég vil miklu frekar segja eitthvað en að segja ekkert. Heimurinn þarf á því að halda að þeir sem þetta bitnar ekki á verði jafn hneykslaðir og þeir sem verða fyrir þessu. Þögnin er ekki valkostur,“ skrifar Katrín Tanja.
„Heimurinn þarf að sameinast og berjast gegn þessu allur sem einn. Við þurfum að berjast gegn þessu með góðmennsku, ást og samúð. Hvar sem mannkynið fer þar er möguleiki fyrir góðvild. Við erum öll eitt og við eigum að halda áfram að berjast þar til að jafnrétti er orðið normið,“ skrifaði Katrín Tanja og endaði á að setja myllumerkið „#BlackLivesMatter“ eða „Líf svarta skiptir máli“ en það smá sjá allan pistil hennar hér fyrir neðan.
Hér fyrir neðan má síðan sjá hvað þær Anníe Mist Þórisdóttir og Sara Sigmundsdóttir settu inn á sína síðu. Sara setti mynd og svo nokkrar táknmyndir um að allir kynþættir lifi í sátt.
Anníe Mist setti aftur á móti inn tilvitnun í blökkumannaleiðtogann Martin Luther King yngri. Martin Luther King, Jr. var frægasti leiðtogi mannréttindabaráttu svartra á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar en hann var síðan ráðinn af dögum í Memphis árið 1968.
Tilvitnunin sem Anníe Mist setti inn er á ensku „In the end, we will remember not the words of our enemies, but the silence of our friends“ en á íslensku „Að lokum, munum við ekki muna eftir orðum óvina okkar, heldur þögn vina okkar.“