Jacob Frey, borgarstjóri Minneapolis, hefur sett á útgöngubann í borginni sem tekur gildi klukkan 20 í kvöld að staðartíma. Bannið gildir fram yfir helgina og kveður á um að fólk sé ekki utandyra milli klukkan 20 á kvöldin til klukkan sex að morgni til.
Á meðan útgöngubanni stendur er óheimilt að fara á milli staða eða vera á opinberum stöðum. Bannið gildir þó ekki um viðbragðsaðila í borginni, fólk sem þarf á neyðaraðstoð að halda eða heimilislausa.
Mayor Frey has issued Emergency Regulation No. 2020-2-1 which imposes a curfew throughout the City of Minneapolis beginning at 8 p.m. tonight (Fri., May 29) and extends through the weekend.
— Minneapolis Clerk (@mplsclerk) May 29, 2020
See the posted regulation for details at: https://t.co/iebgleKnyx pic.twitter.com/7l61oURPtc
Óeirðir hafa verið í borginni eftir að hinn 46 ára gamli George Floyd lést eftir afskipti lögreglunnar. Hann var handtekinn á mánudagskvöld og lést eftir að lögregluþjónninn Derek Chauvin hélt honum niðri með því að halda hné sínu á hálsi hans.
Í myndbandsupptöku af atvikinu heyrist Floyd tilkynna lögreglumanninum að hann gæti ekki andað og bað hann um að drepa sig ekki. Vegfarendur fylgdust með handtökunni, sem hefur vakið mikla reiði víðs vegar um Bandaríkin og leitt til mótmæla í landinu.
Mótmælin hafa staðið yfir í þrjá daga, en eru þó umfangsmest í Minneapolis. Mótmælendur hafa borið eld að byggingum á svæðinu og var meðal annars kveikt í yfirgefinni bensínstöð. Þá var Omar Jimenez, fréttamaður CNN, handtekinn í beinni útsendingu þegar hann fjallaði um mótmælin.