Um það bil fimmtíu lestarfarþegar í Noregi eru á leið í sóttkví eftir að farþegi, maður á fertugsaldri, gekk á milli fólks og andaði framan í það og tilkynnti þeim svo að hann væri smitaður af kórónuveirunni í gær. Lestin var á leið frá Osló til Bergen en var stöðvuð á miðri leið vegna atviksins.
#Hallingdal #Ål 19:15 Politiet har pågrepet en mann i 30 årene på en tog vogn på Ål stasjon. Han gikk rundt å pustet folk i ansiktet og var skremmende. Da politiet tok kontakt med mannen angrep han patruljen med et brannslukkningsapparat ombord på toget. Er nå pågrepet.
— Politiet i Sør-Øst (@politietsorost) March 13, 2020
Í færslu lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið ógnandi og var lögregla kölluð til. Þegar lögreglan mætti á staðinn greip hann svo slökkviliðstæki sem var um borð og hugðist veitast að lögreglumönnum en var yfirbugaður. Lögregla þurfti að nota piparúða við handtökuna.
Eftir handtökuna var farþegum meinað að fara frá borði og þurftu að bíða í nokkrar klukkustundir eftir að starfsfólk reyndi að fá leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum til þess að halda áfram. Eftir samráð við heilbrigðisyfirvöld, lögreglu og borgarstjóra var lestinni leyft að halda áfram þegar búið var að skrá niður upplýsingar um alla um borð.
Engin sýni voru tekin um borð í lestinni en búið sé að skrásetja hverjir hafi verið um borð að því er fram kemur á vef NRK. Ásamt fimmtíu farþegum voru tíu starfsmenn og mun skýrast á næstu dögum hvort sýni verði tekin úr þeim eða hvort heimasóttkví verði látið duga.