Tvær nýjar brýr yfir Þjórsá, sem nú eru í bígerð í tengslum við virkjanaframkvæmdir, gætu haft mikla þýðingu fyrir samgöngur og ferðaþjónustu í uppsveitum Suðurlands. Brú á móts við Árnes styttir vegalengdir um tugi kílómetra milli efstu byggða í Árnes- og Rangárvallasýslu. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Það hefur lengi verið draumur Sunnlendinga að fá brú yfir Þjórsá á móts við þorpið Árnes. Með slíkri brú yrði aðeins sjö kílómetra leið fyrir íbúana þar til að heilsa upp á næstu nágranna sína handan ár í Rangárvallasýslu, í stað þess að aka sextíu kílómetra leið.

Vonir voru raunar bundnar við það sumarið 2009, þegar stefndi í virkjanaframkvæmdir, að brúarsmíðin hæfist þá um haustið, eins og fram kom í þessari frétt Stöðvar 2 frá þeim tíma:
Sjá einnig hér: Vonast til að smíði nýju Þjórsárbrúarinnar hefjist í haust
En núna gæti farið að hylla undir framkvæmdir því forstjóri Landsvirkjunar upplýsti í vikunni að fyrirtækið stefndi að ákvörðun fyrir áramót um hvort hefja ætti undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar.
„Á svipaðan hátt og við höfum gert í síðustu virkjunum, í Búrfelli, Þeistareykjum og á Búðarhálsi, þá svona nokkrum árum áður en við byrjuðum framkvæmdirnar, þá fórum við í aðstöðusköpun, - vegagerð og annað,“ segir Hörður Arnarson forstjóri.
Sjá einnig hér: Ný akleið opnast milli Mývatns og Húsavíkur
Smíði brúar yfir Þjórsá ofan við fossinn Búða ásamt lagningu tengivega við þjóðvegakerfið myndi þá hefjast á næsta ári.

„Þetta mundi nýtast virkjuninni en mundi ekki hvað síst nýtast nærsamfélaginu og skapa, held ég, mikil samlegðaráhrif þarna í sveitinni,“ segir Hörður.
Landsvirkjun hefur raunar á hálfrar aldar starfstíma sínum lagt alls um 650 kílómetra af vegum eða sem samsvarar hálfum hringveginum.
Sjá nánar hér: Vegir Landsvirkjunar á við hálfan hringveginn í lengd
„Allar svona framkvæmdir gerum við í samráði við Vegagerðina. Við höfum gert marga vegi hér á Íslandi, erum núna meðal annars að gera Þeistareykjaveg, - með hringtengingu þar frá Þeistareykjum í Mývatnssveit. Svo afhendum við Vegagerðinni veginn þar á eftir,“ segir forstjóri Landsvirkjunar.
En Landsvirkjun áformar líka aðra brú yfir Þjórsá, á móts við Búrfell ofan við Þjófafoss, sem smíða á í sumar.

Sú brú verður þó ekki fyrir bíla heldur fyrir gangandi vegafarendur og hestamenn, ætluð til að tryggja almenningi aðgang að Búrfellsskógi og fögru útvistarsvæði þar í kring, samhliða því sem ökuleið um Búrfellsstöð verður lokað af öryggisástæðum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: