Skoðun

And­vara­leysi Al­þingis gagn­vart utan­ríkis­málum

Vilborg Ása Guðjónsdóttir skrifar

Árleg umræða um skýrslu utanríkisráðherra var á dagskrá Alþingis í síðastliðinni viku. Eina heildstæða umræðan um utanríkismál á Alþingi Íslendinga. Fyrir ári síðan í umræðunni um skýrslu undangengins árs tóku einungis 13 þingmenn þátt. Nú, þegar utanríkismál hafa sjaldan verið mikilvægari fyrir Ísland á tímum heimsfaraldurs og -kreppu, tóku 10 þingmenn þátt í umræðunni. Þar að auki var ræðutími þeirra styttri en síðustu ár. Nokkrir af þeim þingmönnum sem tóku til máls í umræðunni lýstu yfir ónægju sinni með fyrirkomulagið og kölluðu bæði eftir auknum ræðutíma og að umræðunni yrði skipt upp – að þingmönnum yrði ekki gert að ræða yfirgripsmikla 138 blaðsíðna skýrslu utanríkisráðherra um alla anga málaflokksins á einum og sama þingfundinum á takmörkuðum ræðutíma.

Af hverju er utanríkismálum ekki gert hærra undir höfði á Alþingi?

Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Miðflokkur áttu tvo fulltrúa í umræðunni hver og Samfylking, Viðreisn, Framsókn og Flokkur fólksins einn fulltrúa hver. Þingmenn Pírata tóku ekki þátt í umræðunni.

Vert er að geta þess að umræðan var lífleg og áhugaverð og umfjöllunarefnin fjölbreytt. Hrós fá þeir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni og þar sem þeir eru svo fáir er hreinlega ekkert því til fyrirstöðu að telja þá upp:

  • Ari Trausti Guðmundsson
  • Birgir Þórarinsson
  • Bryndís Haraldsdóttir 
  • Guðmundur Ingi Kristinsson
  • Gunnar Bragi Sveinsson 
  • Logi Einarsson
  • Rósa Björk Brynjólfsdóttir 
  • Sigríður Á. Andersen
  • Silja Dögg Gunnarsdóttir
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Önnur birtingarmynd andvaraleysis Alþingis gagnvart utanríkismálum er nær algjör ósýnileiki alþjóðastarfs Alþingis sem undirrituð skrifaði grein um hér á Vísi fyrr á árinu. Mikilvægi utanríkismála fyrir Ísland er ótvírætt og nauðsynlegt að kjörnir fulltrúar landsins leggi tilhlýðilega áherslu á málaflokkinn. Ljóst er af ofangreindu að svo er ekki raunin í dag.

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur og fv. ráðgjafi í alþjóðadeild Alþingis.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×