Fyrsti áfangi í lagningu fyrsta þjóðvegar Grænlands, sem kallaður verður Arctic Circle Road, hefur verið boðinn út. Vegna fjárskorts er fyrsti áfangi þó aðeins hugsaður sem mjór fjórhjólaslóði, þriggja metra breiður og 130 kílómetra langur. Samkvæmt frétt KNR eiga framkvæmdir að hefjast í sumar og slóðinn að vera tilbúinn haustið 2021.

Síðar er gert ráð fyrir að vegurinn verði byggður upp sem tveggja akreina bílvegur, alls 170 kílómetra langur og sex metra breiður. Hann á að liggja milli Sisimiut, næst stærsta bæjar Grænlands, og Kangerlussuaq-flugvallar, sem áður var kenndur við Syðri-Straumfjörð. Miðað er við að fullbúinn verði þjóðvegurinn að mestu malarvegur en einstaka kaflar hans þó malbikaðir.
Gert er ráð fyrir að verja 50 milljónum danskra króna til gerðar fjórhjólaslóðans, andvirði um 1,1 milljarðs íslenskra króna. Heildarkostnaður við fullbúinn bílveg er hins vegar áætlaður á bilinu 7-10 milljarðar íslenskra króna. Reisa þarf eina brú og gert ráð fyrir allt að tíu áningarstöðum á leiðinni og 2-3 þjónustuhúsum.

Fyrsti áfangi fjórhjólaslóðans verður lagður frá Kangerlussuaq-flugvelli til fjarðar sem kallast Kangerluarsuk Tulleq, og er norðan við Sisimiut, sem er tæplega sexþúsund manna fiskveiðibær. Ráðamenn sveitarfélagsins Qeqqata telja að vegurinn leiði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og opni á fiskflutninga með flugi um alþjóðaflugvöllinn.
Grænlenska þingið samþykkti fyrstu fjárveitingu til vegagerðarinnar í nóvember en Stöð 2 fjallaði þá um verkefnið:
Sjá einnig hér: Grænlenska þingið samþykkti fjárveitingu í fyrsta þjóðveginn