Dómsmálaráðherra afhenti í dag Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nýjan bíl sem ætlaður er til landamæraeftirlits í höfnum og á flugvöllum.
Bíllinn og búnaðurinn eru til kominn vegna athugasemda Evrópusambandsins um að embættið uppfyllti ekki skilyrði í Schengen-samstarfinu. Í bílnum er meðal annars vegabréfaskanni sem er tengdur við Schengen-upplýsingakerfið og Interpol auk rannsóknartækja og hægt er að gefa út vegabréf á staðnum.

„Við getum líka farið og tekið vinnustaðaeftirlit. Skoðað verkamenn og skilríki þeirra í sérstökum búnaði í bílnum og fundið út hvort þeir séu sem þeir segjast vera,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru nú væntanlega færri verkefni fyrir þennan bíl þessa dagana?
„Í venjulegu ári væri að koma hérna á annað hundrað skemmtiferðaskip og það hefði verið nóg að gera en við bíðum bara spennt þangað til að Covid-19 léttir og þetta byrjar allt saman aftur,“ segir Jóhann Karl.