Innlent

Um 250 skráðir í jólamat hjá Hjálpræðishernum

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Andri Eysteinsson skrifa

Rúmlega tvö hundruð og fimmtíu manns eru skráðir í jólamatinn hjá Hjálpræðishernum í dag. Óvenju mörg börn eru meðal þeirra sem mæta í ár.

Sjálfboðaliðar voru í óða önn að undirbúa jólamatinn þegar fréttastofu bar að garði í morgun. Undanfarin ár hefur jólaveisla Hjálpræðishersins farið fram í Ráðhúsinu en er með örlítið breyttu sniði í ár og verður maturinn núna í hádeginu.

„Núna erum við hérna í Mjóddinni, í litla krúttlega húsnæðinu okkar þannig það verður skemmtilegt að púsla þessu,“ sagði Hjördís.

Það kom bersýnilega í ljós í miðju viðtalinu að húsnæðið er þröngt.

Fjölbreyttur hópur sækir veisluna og þá hefur þeim fjölgað í hópi hælisleitenda sem mæta og óvenju mörg börn eru skráð í ár.

„Einstæðingar, fólk sem er eitt um jólin og geta verið frá öllum þjóðfélagshópum í raun og veru. Við miðum við það að þetta sé fólk sem hefur ekkert net í kringum sig.“

„Hjá okkur eru skráð rúmlega 35 börn, það er frekar mikið. Við höfum venjulega verið með um 15-20 börn,“ segir Hjördís.

Alls eru ríflega 250 skráðir.

„Það er um það bil það sama og verið hefur en við höfum fundið meira fyrir því að fólk hringi á síðustu stundu svo við vitum ekki hverju við eigum von á,“ segir Hjördís.

Nú standa yfir framkvæmdir á nýju húsnæði Hjálpræðishersins. Hjördís segist viss um að á næsta ári verði jólamaturinn haldinn á nýjum stað.

„Við verðum á nýjum stað, getum tekið við fleira fólki og þetta verður algjörlega meiriháttar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×