Garry Cook, fyrrverandi stjórnarformaður Manchester City, bauð einu sinni 70 milljónir punda í Lionel Messi fyrir misskilning.
Cook vann hjá City á árunum 2008-11 og var m.a. með leikmannakaup á sinni könnu.
Á fundi með tveimur yfirmönnum hjá City 2008 heyrði Cook annan þeirra segja að leikmannakaup félagsins væru í óreiðu, eða upp á enskuna: „Yes, yes, yes! Very messy, messy, it's getting messy.“
Cook misskildi þetta eitthvað og taldi að City ætlaði að reyna að kaupa sjálfan Lionel Messi.
Cook gerði því Barcelona tilboð í Messi upp á 70 milljónir punda sem var svimandi há upphæð fyrir leikmann á þessum tíma.
Ekkert varð þó af félagaskiptunum og Messi hélt kyrru fyrir hjá Barcelona sem hann hefur leikið með allan sinn feril.
Skömmu eftir þennan misskilning keypti City Brasilíumanninn Robinho frá Real Madrid á 32,5 milljónir punda. Hann var fyrsta stóra nafnið sem City fékk eftir að Abu Dhabi United Group eignaðist félagið.
