Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk þegar Wetzlar vann hans gömlu félaga í Leipzig, 26-29, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.
Viggó hóf tímabilið með Leipzig en gekk í raðir Wetzlar fyrir um mánuði. Wetzlar er í 9. sæti deildarinnar með 16 stig, einu sæti og tveimur stigum á eftir Leipzig sem hefur leikið einum leik meira.
Aðalsteinn Eyjólfsson stýrði Erlangen til sigurs á Minden, 26-29. Þetta var annar sigur Erlangen í röð. Liðið er í 12. sæti deildarinnar.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer sem laut í lægra haldi fyrir Magdeburg, 23-24.
Ragnar Jóhannsson komst ekki á blað fyrir Bergischer sem hefur tapað þremur leikjum í röð og er í 10. sæti deildarinnar.
Strákarnir hans Geirs Sveinssonar í Nordhorn-Lingen töpuðu fyrir Göppingen á útivelli, 28-26. Nordhorn er í átjánda og neðsta sæti deildarinnar með tvö stig, átta stigum frá öruggu sæti.
Viggó reyndist gömlu félögunum erfiður
