Skjálfti að stærðinni 3,6 mældist nú skömmu fyrir klukkan átta, tæplega þrjá kílómetra suðaustur af Fagradalsfjalli. Annar snarpur skjálfti varð á svæðinu í morgun sem fannst alla leið til Hellu.
Hrina skjálfta hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesi, sá fyrsti um klukkan átta í morgun og fylgdu hátt í sjötíu eftirskjálftar. Svo virðist sem skjálftinn klukkan 19:48 hafi verið sá stærsti til þessa en skjálftinn í morgun var 3,5 að stærð.
Sjá einnig: Jarðskjálfti á Reykjanesskaga í morgun fannst á Hellu
Elísabet Pálmadóttir, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag að töluvert hefði verið um eftirskjálftavirkni í morgun. Stærsti eftirskjálftinn var 2,5 að stærð og bárust á annan tug tilkynninga frá fólki sem fann fyrir skjálftanum, allt frá höfuðborgarsvæðinu og ein alla leið frá Hellu.
Um er að ræða virkt jarðsvæði og á árinu hafa um 220 skjálftar orðið í fjallinu. Elísabet segir að ekki hafi verið óeðlilega mikil virkni á svæðinu miðað við það.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir að skjálftinn var yfirfarinn.
