Í samantekt Hagstofunnar er innflytjandi sagður „einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur.“ Þeir sem teljast til innflytjenda af annarri kynslóð eru þau sem fædd eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Í þeim hópi fjölgaði einnig á milli ára, innflytjendur af annarri kynslóð voru 4.861 í fyrra en eru nú 5.263.
Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 15,6 prósent af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega milli ára, og eru nú 6,9 prósent mannfjöldans. Það er fólk sem á erlent foreldri eða er fætt erlendis og á foreldra sem fæddir eru hér á landi.
Pólverjar eru eftir sem áður fjölmennasti hópur innflytjenda á Íslandi og telja þeir rúmlega 38 prósent innflytjenda. Þar á eftir koma einstaklingar frá Litháen, sem eru 5,8 prósent, og frá Filippseyjum, 3,9 prósent. Tveir af hverjum þremur innflytjendum búa á höfuðborgarsvæðinu en hlutfall innflytjenda af mannfjölda var hæst á Suðurnesjum eða 26,6 prósent að því er fram kemur í samantekt Hagstofunnar.
