Atvinnuþróunarfélög í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði og Eyþing verða sameinuð um áramótin. Nýtt félag mun hafa höfuðstöðvar á Húsavík en starfsstöðvar á Akureyri, Tröllaskaga og í Norður-Þingeyjarsýslu.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, segir að samlegðaráhrif séu meginástæðan fyrir því að farið var í sameininguna, en hún hefur staðið til í nokkur ár, að nýta betur mannafla og fjármagn.
Aðspurður um hvort hagsmunir atvinnulífsins í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum fari alltaf saman segir hann svo ekki endilega vera í öllum málum, ekki heldur innan Eyjafjarðar eða Þingeyjarsýslu. „Stóru línurnar eru sameiginlegar. Svo sem að byggja innviði í samgöngum og raforkumálum og fleiru,“ segir Reinhard.
„Efling á einum stað í byggðarlaginu hefur áhrif út fyrir sig og styrkir svæðið sem heild.“ Sem dæmi nefnir hann uppbyggingu stóriðju og ferðaþjónustu á Húsavík á undanförnum árum og uppbyggingu Háskólans á Akureyri á sínum tíma.
Þá segir Reinhard sameininguna einnig styrkja félagið út á við. „Þetta gerir landshlutann sterkari í samtali við ríkisvaldið. Röddin verður einbeittari í einu sterku félagi en þremur smærri,“ segir hann.
Norðausturland verði sterkara sameinað í samtalinu við ríkið
Kristinn Haukur Guðnason skrifar
