Minnst tveir létust og fimmtíu særðust til viðbótar nærri hafnarborginni Basra á sunnudag. Seint á laugardag létust minnst þrír mótmælendur og fjörutíu aðrir voru særðir í Nasiriya.
Síðan ofbeldið hófst í október hafa meira en 300 manns látist og þúsundir særst.
Írakskur almenningur hefur leitað út á götur og krefjast þess að spilling verði upprætt, fleiri störf verði búin til og betri almannaþjónustu. Mótmælin hafa haft mest áhrif í suðurhluta Írak og í höfuðborginni, Bagdad.

Seint á laugardag þurftu heilbrigðisyfirvöld að flytja börn úr sjúkrahúsi í miðborg Nasiriya eftir að táragas barst inn í bygginguna eftir átök milli lögreglu og mótmælenda, samkvæmt fréttastofu Reuters.
Í borginni Basra, hafa mótmælendur sett upp vegatálma á öllum helstu umferðaræðum sem liggja til hafnarborgarinnar Umm Qasr.
Einnig kom til átakanna í heilögu borginni Karbala í nótt og talið er að um 35 manns hafi særst.
Atvinnuleysi og spilling
Rétt rúmt ár er síðan Adel Abdul Mahdi, forsætisráðherra, tók við embættinu og lofaði hann ýmsum úrbætum sem enn hafa ekki orðið að veruleika. Ungir Írakar héldu út á götur til að mótmæla þann 1. október síðastliðinn og kröfðust þess að eitthvað yrði gert í háu atvinnuleysishlutfalli, viðvarandi spillingu og lélegri almannaþjónustu.
Eftir fyrstu mótmælabylgjuna, sem varði í sex daga og 149 létust í, lofaði Abdul Mahdi að hann myndi skipta fólki út í ríkisstjórn sinni, lækka laun hjá hátt settum starfsmönnum og setti fram áætlun um að minnka atvinnuleysi meðal ungmenna.
Mótmælendur tóku ekki vel í þetta, sögðu að kröfum þeirra hafi verið mætt og hófu mótmæli að nýju í lok október.
Barham Saleh, forseti Írak, hefur sagt að Abdul Mahdi muni segja af sér takist stjórnmálaflokkum að komast að samkomulagi um það hver muni taka við.