Embætti héraðssaksóknara mun taka mál Samherja í Namibíu til skoðunar vegna þess sem fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Vísi.
Þungamiðja þáttarins laut að meintum mútugreiðslum til namibískra embættismanna frá Samherja sem voru sagðar nema rúmum milljarði króna til að komast yfir kvóta í Namibíu.
„Við munum taka þetta til skoðunar í tengslum við þær upplýsingar sem hafa komið fram í þættinum og önnur gögn sem embættinu hafa borist,“ segir Ólafur Þór.
Hann tekur fram að megin þungi þessa máls liggur hjá stjórnvöldum í Namibíu. „Það sem yrði aðhafðst hér yrði gert í samvinnu við þartilbær yfirvöld í Namibíu og eða annars staðar,“ segir Ólafur Þór en þættinum kom fram greiðslur frá Samherja hefðu farið norskan banka.
Í almennum hegningarlögum segir að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum.
Uppfært klukkan 22:05: Greint var frá því fréttum RÚV klukkan 22 að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnastjóri Samherja í Namibíu, hefði mætt í skýrslutöku hjá embætti héraðssóknara í morgun. Jóhannes hefur fengið stöðu uppljóstrara í Namibíu í spillingarrannsókn sem tengist Samherja. Var hann aðalviðmælandi Kveiks í umfjöllun þáttarins um umsvif Samherja í Namibíu.
