Gæsluvarðhald yfir starfsmanni Airport Associates sem grunaður er um aðild að stóru fíkniefnamáli sem kom upp á Suðurnesjum fyrir viku var framlengt í gær um viku auk þess honum er gert að sæta einangrun. Lögmaður mannsins hefur kært úrskurðinn til Landsréttar.
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag að starfsmaður á Keflavíkurflugvelli og tveir fyrrverandi starfsmenn á flugvellinum hefðu verið hnepptir í gæsluvarðhald, grunaðir um umfangsmikið fíkniefnasmygl. Eru þeir grunaðir um að hafa smyglað nokkrum lítrum af amfetamínbasa og rúmlega tveimur kílóum af kókaíni til landsins.
Málið kom upp þegar lögreglumenn í almennu umferðareftirliti höfðu afskipti af ökumanni í Reykjanesbæ sem leiddi til þess að það var lagt hald á fíkniefnin á heimili mannsins.
Sá er fæddur árið 1992 og hefur starfað í nokkur ár hjá Airport Associates sem þjónustar flugfélög á Keflavíkurflugvelli. Tveir aðrir eru grunaðir í málinu en þeir eru fyrrverandi starfsmenn Airport Associates. Annar gengur laus en gæsluvarðhald yfir hinum rennur út í dag.
Söluvirði efnanna sem fundust gæti numið á þriðja hundrað milljóna króna.
