Fundurinn hefst klukkan 10:30 og verður í beinni útsendingu á Vísi.
Ekki liggur fyrir hvað koma mun fram á fundinum en félagið hóf starfsemi í nýju skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði í ágúst. Þá voru tíu starfsmenn að vinna hjá félaginu.
Þá hefur komið fram að undirbúningur endurreisnar félagsins hefur dregist.
Sjá einnig: Aðstandendur WAB air ekki af baki dottnir
Fram kemur í frétt Túrista, sem birtist í dag, að leitað hafi verið til íslenskra fjárfesta að undanförnu í þeirri von að safna hátt í tveimur milljörðum króna í hlutafé. Fjárfestum hafi verið kynnt gögn sem meðal annars ganga út á að flugfélagið flyti um hálfa milljón ferðamanna til Íslands á næsta ári.
Það sé til marks um að félagið þurfi fimm til sex flugvélar að lágmarki.
Í byrjun september sögðum við frá því að hópur fjárfesta, í samfloti við írska fjárfestingasjóðinn Avianta Capital, standi að stofnun WAB air. Í fjárfestahópnum, auk Sveins, eru Arnar Már Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air, Bogi Guðmundsson, lögmaður hjá Atlantik Legal Services og Þóroddur Ari Þóroddsson, sem hefur starfað sem ráðgjafi í flugvélaviðskiptum í Lundúnum.