Erlent

Mjótt á munum í Kanada

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skipting þingsæta samkvæmt meðaltali skoðanakannana.
Skipting þingsæta samkvæmt meðaltali skoðanakannana. Vísir/Grafík
Forsætisráðherratíð Justins Trudeau gæti verið á enda. Útlit er fyrir að hans Frjálslyndi flokkur missi meirihluta sinn á þingi í kosningunum. Kanadíska ríkisútvarpið telur einungis um þrettán prósenta líkur á því að meirihlutinn haldi og því stefnir annað hvort í nýja ríkisstjórn eða minnihlutastjórn Frjálslyndra.

Staðan er alls ekki svört fyrir forsætisráðherrann, ef marka má meðaltal skoðanakannana. Flest bendir til þess að Frjálslyndi flokkurinn fái flest atkvæði og mest fylgi. Tapi þó um fjörutíu þingsætum.

Íhaldsflokkurinn hefur mælst næstvinsælastur. Þar sem einmenningskjördæmi eru í Kanada er svo útlit fyrir að Nýir Demókratar fái færri sæti en flokkur sjálfstæðissinna í Quebec þrátt fyrir að vera með mun meira fylgi á landsvísu.

Trudeau tók við sem forsætisráðherra árið 2015 og skapaði sér ímynd sem fánaberi bæði framsækinna og frjálslyndra. Eftir því sem líða tók á kjörtímabilið fór hins vegar að fjara undan vinsældum hans. Var hann til dæmis sakaður um spillingu og að hafa hindrað rannsókn á kanadísku stórfyrirtæki.

Þá birtust nýlega myndir af Trudeau frá háskólaárum hans þar sem hann hafði málað sig hörundsdökkan. Myndirnar mættu fordæmingu kjósenda og pólitískra andstæðinga og voru sagðar bæði ósmekklegar og rasískar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×