Jaco Peyper, sem er frá Suður-Afríku, átti að dæma undanúrslitaleik Englands og Nýja Sjálands, en ekkert verður nú af því.
Ástæðan er mynd sem var tekin af Jaco Peyper með stuðningsmönnum Wales eftir leik Frakklands og Wales í átta liða úrslitunum.
Jaco Peyper will not referee a World Cup semi-final after mocking sent-off France lock Sebastien Vahaamahina in a picture with Wales fans.
More https://t.co/kIowEZSzzDpic.twitter.com/c9Jg6gWQXI
— BBC Sport (@BBCSport) October 22, 2019
Jaco Peyper hafði nokkrum tímum áður sent Frakkann Sébastien Vahaamahina af velli með rautt spjald og Wales vann leikinn með minnsta mun, 20-19. Sébastien Vahaamahina fékk rautt fyrir að gefa Walesverjanum Aaron Wainwright olnbogaskot.
Á myndinni með Jaco Peyper og stuðningsmönnum Wales, sjást bæði dómarinn og stuðningsmennirnir leika það eftir að gefa manni olnbogaskot í hökuna eins og umræddur Vahaamahina varð uppvís að í leiknum. Umræddur leikur var 50. landsleikurinn sem Peyper dæmdi á ferlinum.
Daginn eftir tilkynnti Sébastien Vahaamahina að hann væri hættur. Sú ákvörðun tengdist þó ekki rauða spjaldinu.
Franska rúgbý sambandið var allt annað en ánægt með myndatökuna og menn þar innanborðs kölluðu hana sjokkerandi. Flest allir geta verið sammála um það að hún er mjög vafasöm enda tekin aðeins nokkrum tímum eftir að Jaco Peyper hafði dæmt leik hjá Wales.
Jaco Peyper var búinn að biðjast afsökunar fyrir myndatökuna og var fyllilega sammála því að hún væri ekki við hæfi þó hann hafi ekki áttað sig á því á þeim tíma. Það breytir því þó ekki að hann missti undanúrslitaleikinn og dæmir ekki fleiri leik á HM í rúgbý.