Helgi Magnússon er einn eigenda Torgs og situr í stjórn ásamt Ingibjörgu Pálmadóttur. Hann sagði í stuttu samtali við Vísi að honum hafi verið alls ókunnugt um að slík krafa gæti legið í loftinu þegar hann samdi um kaup á Fréttablaðinu og kom svo inn sem helmings eigandi 1. júlí á þessu ári. Helgi sagðist spurður að þetta hafi aldrei verið rætt í stjórn, hann þekkti málið því ekki og vísaði á formann Torgs sem er Ingibjörg Pálmadóttir; formaður talaði fyrir hönd félagsins.

Vilja helming greiðslu
„Gengið var frá kaupunum í mars 2017 en samkvæmt samrunaskrá nam kaupverðið 7,8 milljörðum króna. Greint var frá því að Torg og Sýn hefðu gert með sér samstarfssamning um nýtingu efnis úr Fréttablaðinu á vísi.is til skamms tíma en við umfjöllun Samkeppniseftirlitsins var samkomulagið lagt fram sem fylgiskjal við kaupsamninginn og merkt trúnaðarmál,“ segir í Mannlífi.Blaðamenn Fréttablaðsins telja sig hlunnfarna en samkvæmt aðalkjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins kveður á um að „við sölu á höfundaréttarvörðu efni til þriðja aðila, s.s. annarra fjölmiðla, einstaklinga eða samtaka, skal gera samkomulag um slíka sölu við einstaka vinnuhópa, s.s. ljósmyndara eða heildarsamtök rétthafa á hverjum vinnustað.

Í kringum 30 stöðugildi sem um ræðir
Blaðamennirnir telja sig, með vísan til þessa, eiga rétt á helmingi greiðslunnar sem er þá um 50 milljónir króna. Ekki liggur fyrir hversu stór hópur það er sem stendur að þeirri kröfu. Mikil starfsmannavelta hefur verið á Fréttablaðinu á þessu tímabili sem þýðir að nokkur fjöldi blaðamanna gæti komið að kröfugerðinni en á að giska gæti verið um að ræða í kringum 30 stöðugildi blaðmanna og ljósmyndara.Trúnaðarmaður blaðamanna Fréttablaðsins er Aðalheiður Ámundadóttir en Mannlíf hefur eftir henni að lögmaður hafi verið fenginn í málið og að Blaðamannafélagið fylgdist með. Aðalheiður telur líkur á að málið fari fyrir dómsstóla.