Átta af níu lögreglustjórum á landinu lýstu yfir vantrausti á hendur ríkislögreglustjóra í gær og sagði embættið óstarfhæft. Landsamband lögreglumanna tók í sama streng og vilja að Haraldur stígi til hliðar. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu í 1998.
„Ég held að þetta sé fordæmalaus staða og ég held að það segi sitt að jafn háttsettir og grandvarðir embættismenn og raun ber vitni eru að leggja fram vantrauststillögu, ég held að þetta hljóti að vera örþrifaráð og segja sína sögu um að mikið hljóti að hafa gengið á fram að þessu til þess að þetta sé niðurstaðan,“ segir Þórhildur Sunna.

„Ég átti fund með ríkislögreglustjóra í morgun. Ég bind vonir við að það samtal muni halda áfram. Ég hef nú þegar sett af stað vinnu í ráðuneytinu sem fór af stað strax í síðustu viku. Það var sent bréf til lögreglustjóra, ríkislögreglustjóra, lögreglumanna og annarra hluteigandi og sé fram á að þeirri vinnu miði hratt áfram og muni ljúka hratt,“ sagði Áslaug Arna við fjölmiðla í morgun.
Haraldur hefði ekki ljáð máls á því að stíga til hliðar og hann yrði áfram ríkislögreglustjóri. Niðurstöðu vinnu í ráðuneytinu væri að vænta innan nokkurra vikna. Þá vildi Áslaug ekki upplýsa hvað fór fram á fundi þeirra Haraldar í morgun.
„Það kom mér á óvart að hún tæki ekki sterkar til orða þegar kom að þessum vantraustsyfirlýsingum. Hún talar um að lögreglan verði að starfa þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingar og boðar skipulagsbreytingar og fundar með ríkislögreglustjóra en gefur ekki til kynna hvert hennar álit er á þessum vantraustsyfirlýsingum eða hvað eigi að gera í kjölfarið á þeim,“ segir Þórhildur Sunna.
Fréttin hefur verið uppfærð.