Skoðun

Fjármálaráðherra líti sér nær

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Skot fjármálaráðherra á veitingamenn á dögunum var fyrir neðan beltisstað. Bjarni Benediktsson var þreyttur á umræðu um að áfengisgjald skýri hátt verð á áfengi hér á landi og fór opinberlega að agnúast út í að samkvæmt lauslegri athugun væri álagning á bjór á veitingastað 270 prósent.

Veitingastaðir eru lítil fyrirtæki sem veita mikla þjónustu, oft í fallegum húsakynnum. Þjónn kemur til viðskiptavinarins, fær pöntun um bjór, hellir í glasið og kemur með það á borðið. Nokkru seinna er glasið þrifið.

Það má ekki líkja veitingahúsum við stórmarkað þar sem álagningin er lág því framlegðin fæst með því að selja mikið magn án þjónustu. Það er eðlilegt að álagning bjórglass sé jafnvel nokkur hundruð prósent enda þarf framlegðin að standa straum af miklum kostnaði; húsnæði, starfsfólki, sköttum, hagnaði og bjórnum sjálfum. Ef um dýrari vöru væri að ræða með sömu þjónustu gæti álagningin verið minni.

Hvað varðar verðlag verður ekki fram hjá því litið að skattar hérlendis sem hlutfall af landsframleiðslu eru með þeim hæstu í OECD-ríkjunum og áfengisgjaldið er mun hærra en þekkist hjá öðrum ríkjum. Jafnvel þeim sem beita skattheimtu til að stemma stigum við ofneyslu áfengis. Áfengisgjaldið á bjór er tvöfalt hærra en í Svíþjóð þar sem álögurnar eru hæstar í Evrópusambandinu. Fjármunirnir sem standa undir háum skattgreiðslum eru sóttir í vasa neytenda.

Rekstur veitingastaða í Reykjavík á undir högg að sækja. Laun hafa hækkað verulega sem meðal annars má rekja til launaskriðs opinberra starfsmanna. Til að bæta gráu ofan á svart eru skattar háir, til að mynda tryggingargjaldið sem eykur launakostnað og fasteignagjöld hafa hækkað verulega. Birgjar veitingastaða glíma að sjálfsögðu við sama vanda sem setur þrýsting á innkaupsverð.

Svo haldið sé áfram að þusa um háa skatta má nefna að aka þarf bjórnum á veitingastaði en álögur á bifreiðar og eldsneyti eru með því hæsta sem þekkist. Allt leggst þetta saman á eitt.

Eftir ferðamannasprengjuna er offramboð af veitingastöðum. Margir þeirra standa á brauðfótum. Eigendurnir horfa því væntanlega fremur til þess að hækka verð eftir því sem veitingahúsum fækkar í stað þess að lækka það.

Það væri því einfaldlega sanngjarnara ef fjármálaráðherra myndi lækka skatta almennilega í stað þess að röfla í barþjóni um hvað bjórglasið sé dýrt, eins og hann segist hafa gert.


Tengdar fréttir

Bjarna blöskraði bjórverðið á barnum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skellti sér á barinn á Nordica Hilton hótelinu á Suðurlandsbraut um helgina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt flokksráðsfund sinn um helgina.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×