Sjá einnig: Gefið að sök að hafa grafið ungabarn lifandi
Málið hefur vakið töluverða athygli í Bandaríkjunum. Richardson var átján ára þegar hún fæddi stúlkubarn inni á baðherbergi á heimili sínu í bænum Carlisle í Ohio í maí árið 2017. Hún hafði falið meðgönguna fyrir bæði foreldrum sínum og kærasta en enginn nákominn henni hafði minnstu hugmynd um að hún gengi með barn.
Eins og áður segir var Richardson sýknuð af ákærum um morð. Þá var hún einnig sýknuð af ákærum um að stofna lífi barns í hættu, auk manndrápsákæru.
Richardson var hins vegar sakfelld fyrir að svívirða lík. Refsing yfir henni verður kveðin upp síðar dag. Gert er ráð fyrir að hún hljóti skilorðsbundinn dóm.

Saksóknari byggði mál sitt jafnframt á því að Richardson hefði slegið leitarorðin „hvernig skal losa sig við barn“ inn í leitarvélar á netinu. Þá hafi hún viðurkennt í yfirheyrslu lögreglu að hún gæti hafa séð barnið hreyfa sig og gefa frá sér hljóð. Richardson hafi þannig myrt barnið, og það hafi hún enn fremur gert til að fá ekki smánarblett á „fullkomið líf“ sitt.
Richardson hélt því ætíð fram að barnið, sem hún nefndi Annabelle, hafi fæðst andvana. Hún hafi grafið líkið vegna þess að hún var sorgmædd og hrædd.
Sálfræðingur sem bar vitni við réttarhöldin sagði að klækjabrögðum hefði verið beitt við yfirheyrslur til að knýja fram falskar yfirlýsingar Richardson. Hún væri bæði berskjölduð og óþroskuð, auk þess sem hún væri haldin persónuleikaröskun sem gerði henni illmögulegt annað en að þóknast yfirboðurum sínum. Þannig ætti lögregla afar auðvelt með að sannfæra hana um að lýsa á hendur sér glæpsamlegu athæfi.