Líklegt er að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, verði kjörin formaður umhverfis- og samgöngunefndar með tveimur atkvæðum flokksins í nefndinni en fulltrúar allra annarra flokka sitji hjá.
Ekki tókst að ganga frá kjöri Bergþórs á fundi nefndarinnar í gær þar sem Jón Gunnarsson sitjandi formaður nefndarinnar frestaði fundi eftir að Hanna Katrín Friðriksson fulltrúi Viðreisnar í nefndinni tók undir tillögu Björns Leví Gunnarssonar áheyrnarfulltrúa Pírata um að Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins yrði kjörinn. Eftir fundinn í gær lýsti Karl því yfir að hann sæktist ekki eftir embættinu. Nefndin kemur aftur saman til fundar klukkan þrjú í dag.
„Það er í fyrsta erfitt fyrir mig að spá nokkuð fyrir um framgang málsins á fundinum. En ég get sagt að út frá mínum bæjardyrum og bæjardyrum Viðreisnar að það var alltaf ljóst að formennska Jóns Gunnarssonar í nefndinni væri tímabundin,“ segir Hanna Katrín.
Hann hafi tekið við formennskunni eftir klausturmálin sem hafi farið fyrir siðanefnd Alþingis sem komist hafi að niðurstöðu í sumar. Svo varð ekki. Samkvæmt samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu
„Ég vonaði auðvitað að niðurstaðan myndi leiða til þess að þingflokkur Miðflokksins myndi tilnefna annan fulltrúa sinn í þessa formennsku. Samkvæmt samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu á Miðflokkurinn þessa formennsku. Þannig að ef þetta er fulltrúi þeirra á fundinum í dag mun ég ekki greiða atkvæði gegn honum,“ segir Hanna Katrín. Hún muni því sitja hjá við tillögu um Bergþór.
Hefð er fyrir því að flokkar skipti sér ekki af vali annarra flokka á fulltrúum í nefndir og formennsku í þeim. Stjórnarflokkarnir hafa lýst yfir að skipan í formennsku í þremur nefndum þingsins sé algerlega í höndum stjórnarandstöðuflokkanna og því munu fulltrúar þeirra væntanlega sitja hjá einnig við kjörið í dag komi til þess.
Gæti jafnvel farið svo að Bergþór yrði kjörinn eingöngu með sínu eigin atkvæði og atkvæði Karls Gauta?
„Það gæti farið svo já. Það gæti gert það.“
Að allir sitji í raun hjá nema Miðflokkurinn?
„Eins og ég segi, ég get bara talað út frá mér. En þetta gæti orðið möguleg niðurstaða,“ segir Hanna Katrín Friðriksson.
