Landsréttur hafnaði kröfu Isavia um að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness yrði felldur úr gildi. Hafði Héraðsdómur Reykjaness komist að þeirri niðurstöðu að Isavia yrði að afhenda bandaríska leigufélaginu Airbus-þotu sem Isavia hafði kyrrsett gegn öllum skuldum flugfélagsins WOW air.
Greint er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins en þar kemur fram að Landsréttur hafnaði kröfu Isavia fyrir helgi.
Eftir að Isavia hafði verið gert að afhenda farþegaþotuna var henni flogið af landi brott tveimur dögum síðar í júlí síðastliðnum.
Úrskurður héraðsdóms kvað á um að réttaráhrifum niðurstöðu dómsins skyldi ekki frestað, sem þýðir að vélin yrði laus þrátt fyrir að Isavia tæki ákvörðun um að fara með málið lengra. Isavia hefur þegar kært niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar.
RÚV segir Landsrétt hafa komist að þeirri niðurstöðu að Isavia hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt úr því að ALC hafði fengið þotuna.
